Um SÁTTina

Í Seljaskóla vinnum við út frá ákveðnum gildum sem um leið eru einkunnarorð skólans. Þessi gildi eru Samvinna -Ábyrgð -TraustTillitssemi. Upphafsstafir þessara orða mynda saman orðið SÁTT. Í daglegu tali tölum við í Seljaskóla um SÁTT þegar við eigum við það hegðunarkerfi sem við vinnum eftir og nefnist á ensku PBS (Positive Behavior Support) eða heildstæður stuðningur við jákvæða hegðun.

Heildstæður stuðningur við jákvæða hegðun - PBS (Positive Behavior Support)
Til að tryggja góða menntun þarf stöðugt að huga að tvennu; árangri í námi og aga. Ef nemendur finna ekki til öryggis, bera ekki virðingu fyrir öðrum og axla ekki ábyrgð í skólastarfi hindrar það árangur þeirra sjálfra og annarra. Ef starfsfólk skólans vinnur ekki saman og einbeitir sér að sama markmiði verður það óánægt, ósamkvæmt sjálfu sér og árangurinn verður ekki sem skyldi. Ef foreldrar fá ekki stuðning og hvatningu til að vinna með skólanum finnst þeim þeir vera utanveltu og börnum þeirra gengur ekki jafnvel í skólanum og ella. Við verjum tíma í að koma á jákvæðu andrúmslofti í skólanum þar sem ekkert barn er utanveltu og enginn starfsmaður er án stuðnings.

PBS er árangursrík stjórnunartækni sem hefur reynst vel fyrir nemendur á almennum svæðum í skólum (alla nemendur), fyrir þá sem hættir til hegðunarvandamála (suma nemendur) og einnig fyrir (fáa) nemendur í skólanum sem þurfa einstaklingsmiðuð úrræði vegna hegðunarerfiðleika. Í PBS er að finna inngripsaðferðir sem byggja á ítarlegum rannsóknum á agamálum í skólum og fjalla um inngrip í hegðun nemenda í öllum skólanum, á sameiginlegum svæðum, í kennslustofum svo og hegðun einstakra nemenda. Þessi samhæfða nálgun hefur sýnt fram á ágæti sitt í rannsóknum þótt tiltölulega stutt sé síðan hún var almennt tekin upp í skólum og skólakerfum. Þessu kerfi er beitt samhliða öðrum forvarnarkerfum í félagsfærni- og lífsleikninámi.

Með heildstæðum stuðningi (PBS) vinnum við stöðugt að bættum starfsháttum hvarvetna í skólanum og bættum bekkjaranda í öllum aldurshópum. Einnig leiðir PBS til bættra stuðningsúrræða fyrir einstaka nemendur og árangursríkrar samvinnu við foreldra allra nemenda í skólanum.

Í þessu kerfi felst að öllum nemendum skólans er kennd sú hegðun sem við viljum sjá á hverjum stað. Hegðunarvæntingar eru rifjaðar upp með reglubundnum hætti og góð hegðun er styrkt með hrósi og að lokum umbun. Verði nemanda á að sýna ekki þá hegðun sem vænst er fær hann upprifjun á væntingum og tækifæri til að leiðrétta hegðunina. Verði nemanda ítrekað á er skráð á hann hegðunarfrávik jafnframt því sem væntingar eru rifjaðar upp og honum gefið tækifæri á leiðréttingu. Nemendur fá alltaf tækifæri á að leiðrétta mistök en sé hegðunarfrávik mjög alvarlegt, s.s. ofbeldi eða þjófnaður, er tekið á því með sértækum hætti samkvæmt agaferli skólans. Með svipuðum, sértækum hætti er tekið á margítrekuðum hegðunarfrávikum.

Nemendur sem eiga í hegðunarerfiðleikum þurfa oft sértæka og einstaklingsmiðaða kennslu í hegðun og væntingum og er gjarnan sett upp sérstök áætlun fyrir þá nemendur. Í þeirri áætlun eru markmiðin fá og afmörkuð í senn og þeim fylgir sérstakt (einstaklings-) umbunarkerfi.

Hver nemandi getur unnið sér inn hrós í formi Gullmola sem eru tákn fyrir það sem vel er gert. Gullmolum safnar hver bekkur í ílát hjá umsjónarkennara og þegar ákveðnum fjölda er náð fær bekkurinn sameiginlega umbun sem fyrirfram hefur verið ákveðin.

Allt starfsfólk skólans fær markvissa þjálfun í að kenna, leiðrétta, æfa og hrósa fyrir góða hegðun. Hugmyndafræði PBS byggir á því að allir þeir sem í skólanum starfa sinni þessum heildstæða stuðningi við jákvæða hegðun, PBS.

Prenta | Netfang