Skip to content

Nemendaráð Seljaskóla

Starfsáætlun nemendafélagsins

Starf Nemendafélags Seljaskóla skiptist í þrjá aðalþætti:

1. Félagslíf

Nemendafélag Seljaskóla heldur úti öflugu félagslífi yfir veturinn. Haldnir eru dansleikir þrisvar til fjórum sinum á misseri og á hverjum fimmtudegi er opið hús fyrir nemendur í samkomuhúsi skólans. Á opnum húsum er ýmislegt um að vera og til dæmis hafa verið haldin videokvöld, borðtennismót, Actionary keppni, karaoke kvöld og bingó.Stundum er farið út fyrir skólann, til dæmis í keilu eða bíó. Stjórn Nemendafélags Seljaskóla skipuleggur þess utan tvö til fjögur diskótek fyrir nemendur sjötta og sjöunda bekkjar yfir veturinn og á vorin er nemendum sjöunda bekkjar boðið á dansleik í unglingadeildinni til undirbúnings fyrir næsta vetur.

Árshátið unglingadeildar er haldin í mars og er þá mikið um dýrðir. Árshátíðin er haldin í sal utan skólans þar sem nemendur snæða saman kvöldverð, flytja skemmtiatriði og landsþekktar hljómsveitir leika undir dansi. Árshátíðin er hápunktur félagsstarfsins og allur ágóði af skemmtunum vetrarins rennur í að gera hana sem best úr garði. Í þeim tilgangi rekur nemendaráð sjoppu á viðburðum vetrarins þar sem versla má sætindi og ropvatn. Í fjáröflunarskyni er einnig haldið aðventukaffi og kökubasar ár hvert í tengslum við jólaföndur foreldrafélagsins í barnadeild.

Stjórn Nemendafélags Seljaskóla ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd félagslífsins í samstarfi við félagsstarfskennara skólans. Almennar kosningar til stjórnar Nemendafélagsins fara fram á hverju vori þar sem hver árgangur kýs fulltrúa til setu í stjórninni á næsta skólaári.

Félagslíf í Seljaskóla er skipulagt í samstarfi við félagsmiðstöð ÍTR í Hólmaseli sem m.a. leggur til gæsluaðila á viðburði. Þetta samstarf hefur verið ákaflega gott og ánægjulegt og er bráðnauðsynlegur hluti af gæfuríku skólastarfi. Skólinn tekur einnig þátt í þeim sameiginlegu viðburðum grunnskólanna í Reykjavík sem eru skipulagðir af ÍTR, t.d. spurningakeppninni Nema hvað? hæfileikakeppninni Skrekk, skólahreysti, íþróttamótum og ræðukeppni grunnskólanna.

Á hverju hausti gefur Nemendafélag Seljaskóla út félagslífsdagatal þar sem grunnþættir í félagslífi vetrarins eru dagsettir, að því marki sem mögulegt er. Dagsetningar geta breyst með skömmum fyrirvara, auk þess sem keppnir og atburðir á vegum annarra en Nemendafélagsins eru ekki inni á dagatalinu. Allir slíkir atburðir, auk allra viðburða félagslífsins í skólanum birtast á viðburðadagatalinu hér á síðu skólans.

 

2. Hagsmunagæsla

Nemendafélagið er talsmaður nemenda gagnvart skólastjórn og sinnir hagsmunagæslu fyrir nemendur á þeim vettvangi. Stjórn nemendafélagsin kýs í þessu skyni tvo fulltrúa úr sínum hópi til setu í skólaráði ásamt fulltrúum skólastjórnenda, starfsmanna og foreldra við skólann.  Einnig er stjórn nemendafélagsins eða fulltrúar hennar gjarnan kölluð til þegar álits nemenda er óskað.

 

3. Fjáröflun

Til að standa undir kostnaði við félagslíf, nemendaferðir og árshátíð stendur nemendafélagið fyrir fjáröflun jafnt og þétt yfir veturinn.  Nemendafélagið rekur t.d. í þesum tilgangi sjoppu á öllum atburðum félagslífsins yfir veturinn.  Auk afraksturs af sjoppu og aðgangseyri á atburði skipuleggur nemendafélagið nokkra sértæka fjáröflunaratburði og átök á skólaárinu.  Helst ber þar að nefna jólakaffisölu og kökubasar sem haldinn er í samstarfi við jólaföndur foreldrafélags Seljaskóla. Jólaföndrið og kaffihús nemendafélagsins er orðinn árviss viðburður á aðventunni hjá mörgum og er afar hátíðlegt.  Meðal annarra fjáröflunarátaka sem nemendafélagið hefur staðið fyrir er sala á merktum peysum og sala á salernispappír og eldhúspappír.

Allur ágóði af fjáröflun nemendafélagsins fer beint til nemenda sjálfra í formi betra félagslífs, og er forsenda þess að nemendafélag Seljaskóla getur boðið nemendum upp á jafn fjölbreytt og sterkt félagslíf og raun ber vitni undanfarin ár.  Meðal þess sem fjáröflunin stendur straum af má nefna árshátíð nemendafélagsins, skífuþeytara og hljómsveitir á böllum, búninga og aukahluti í Skrekksatriði skólans, skreytingar á atburðum félagslífsins og ýmis kostnaður vegna nemendaferða.

Stjórn nemendafélagsins ber alfarið ábyrgð á fjármunum félagsins og meðferð þeirra.