Skip to content

Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík

Hlín, Alma og Birna Rún fengu tilnefningu Seljaskóla til Íslenskuverðlauna unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík.

Verðlaununum er úthlutað árlega á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, nema í ár þá var þeim frestað út af heimsfaraldri og fór afhending þeirra fram þann 21. febrúar.

Markmið þeirra er að auka áhuga æskufólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Hlín komst ekki á afhendinguna en tilnefning hennar hljóðar svona:

Hlín er með mjög gott vald á íslenskri tungu. Hún býr yfir fjölbreyttum og ríkulegum orðaforða og getur með skýrum hætti tjáð sig hvort sem er í rituðu eða mæltu máli. Hún er afar áhugasöm um tungumálið og hefur gaman af að leika sér að því og skrifa skemmtilegar sögur. Hún er vel lesin, veigrar sér ekki við að lesa krefjandi bókmenntir sem reyna á skilning og túlkun.

Alma er einstaklega duglegur og flottur námsmaður. Hún er sjálfstæð við vinnu sína og fljót að tileinka sér námsefnið. Alma er góð fyrirmynd fyrir aðra nemendur. Hún er vandvirk og kemur verkefnum vel frá sér, bæði munnlega og skriflega. Alma er dugleg að lesa bæði sér til gagns og til ánægju.

 

 

 

Birna hefur góð tök á íslenskri tungu og á einstaklega auðvelt með að tjá sig í rituðu máli. Hún hefur tileinkað sér mikinn og góðan orðaforða sem nýtist henni í öllu hennar námi og hefur gríðarlega góðan lesskilning. Hún er framúrskarandi í verkefnum sem snúa að rituðu máli og hefur einstakt lag á því að beita frumlegri og skapandi hugsun við úrlausn verkefna. Birna skrifar fallega og skapandi texta sem flæða vel, gaman er að lesa og hrífa lesandann með sér.

 

 

Starfsfólk Seljaskóla er stolt af nemendum okkar og eru þær stöllur verðugir fulltrúar okkar. Innilega til hamingju Birna, Alma og Hlín!