Skip to content

Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík 2020

Á Degi íslenskrar tungu  eru íslenskuverðlaun unga fólksins veitt og eigum við í Seljaskóla þrjá fulltrúa í ár. Verndari Íslenskuverðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, og hefur hún oftast verið viðstödd afhendingu þeirra við hátíðlega athöfn í Hörpu. Að þessu sinni er verðlaunaafhendingin með breyttu sniði og verða þau afhent tilnefndum nemendum í hverjum skóla fyrir sig. Sjá má ávarp frú Vigdísar á myndbandi sem fylgir fréttinni.

Allir verðlaunahafarnir fá viðurkenningarskjal og bókina Ljóðaúrval með ljóðum Jónasar Hallgrímssonar í samantekt Böðvars Guðmundssonar.

Þetta er í fjórtánda sinn sem Íslenskuverðlaunin eru afhent en þau eru á vegum skóla- og frístundráðs Reykjavíkurborgar í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Íslenskuverðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli.

Innilega til hamingju, Ísabella Sól Lúðvíksdóttir 10. VJ, Hrafndís Hanna Halldórsdóttir 7. AK og Adam Ingi Grétarsson 4. AS.


Ísabella hefur einstök tök á íslenskri tungu og á auðvelt með að tjá sig í rituðu máli. Hún hefur tileinkað sér mikinn og góðan orðaforða sem nýtist í öllu hennar námi og hefur gríðarlega góðan lesskilning. Hún er framúrskarandi í verkefnum sem snúa að rituðu máli og hefur einstakt lag á því að beita frumlegri og skapandi hugsun við úrlausn verkefna. Auk þess leggur Ísabella mikla alúð í öll verkefni sem snúa að íslenskri tungu og augljóst að hún hefur mikinn metnað fyrir að standa sig vel á því sviði.

Hrafndís Hanna er framúrskarandi nemandi í íslensku. Hún er áhugasöm í kennslustundum,sinnir náminu vel og sýnir mjög góða færni í notkun tungumálsins, jafnt í málfræði,ritun og tjáningu.Hún sinnir alltaf heimalestri og öðru því sem ætlast er til af henni. Hrafndís fékk A í íslensku á samræmdu prófunum.
Hún er dugleg að lesa og er áhugasöm um ýmsar bókmenntir.
Einnig notar hún gott málfar og góðan orðaforða í daglegu tali.
Hrafndís er vel að þessum verðlaunum komin.

Adam Ingi er með mjög gott vald á íslenskri tungu. Hann býr yfir fjölbreyttum og ríkulegum orðaforða og getur með skýrum hætti tjáð sig hvort sem er í rituðu eða mæltu máli. Hann hefur auk þess mikinn og góðan skilning á málfræðilegum rótum tungumálsins og á því auðvelt með að tileinka sér nýja þekkingu á því sviði. Hann er vel lesin, veigrar sér ekki við að lesa krefjandi bókmenntir sem reyna á skilning og túlkun og á auðvelt með að greina og kryfja það sem hann les.  Hann er framúrskarandi nemandi í íslensku.